1.2.2009 | 00:57
Kraftawerki líkast
Ég verð að henda inn dómnum þar sem Benson félagi minn fann hann.
Ekki amarlegur ......
Mulletmenn hafa sem betur fer vit á því að umgangast þessa sögulegu popptónlist af verðskuldaðri auðmýkt og virðingu án þess þó að gleyma gleðinni. Þetta er kannski ekki svo mikið undrunarefni þegar litið er til þess að meðlimir Mullet voru virkir í íslensku nýrómantíkinni á sínum tíma með hljómsveitinni Splendid og því hefur innblástur og réttur andi ekki verið órafjarri.
Opnunarlagið er vel heppnuð blanda af Gary Numan og Kraftwerk og "You´re a Star" er líkast til besta lagið sem hljómsveitin Human League hefur aldrei samið. Það er skreytt með frábærum texta þar sem er að finna línur eins og, "Who do you think you are. Some kind of supermodel. Come on and think again. Look in the mirror!" Maður sér augnskuggahlaðið myndbandið í hyllingum. Fullkomið níunda áratugar tölvupopp. Einar Ágúst Skítamóralsmaður syngur svo lag Depeche Mode, "It Doesn´t Matter", (hvað annað?) og gerir það afbragðsvel. Rödd hans er vélræn og sannfærandi og smellpassar við tónlistina. Lagið "Everything" er svo kirfilega bundið tímabilinu 1979-1982 að ég myndi álíta það b-hlið einhverrar smáskífu Depeche Mode ef ég vissi ekki betur. Síðasta lagið í hárblásnum innganginum reynist svo hálfgerður stílbrjótur þar sem það skáskýtur sér nett inn á menntuð svæði franska rafgutlarans Jean-Michel Jarre.
Á seinni helmingi disksins kippa Mulletmenn svo andagiftinni aftur til okkar tíma. Í þeim lögum eru þeir að fást við umhverfða hljóma og ná ágætlega að skapa seyðandi andrúmsloft með þeim, þá sérstaklega í laginu "Fixed mood" sem er vafalaust ný
stárlegasta lag disksins. Hin "nýju" lögin hljóma þó svolítið gamaldags, líkjast helst umhverfingstónlist þeirri sem hæst fór fyrir u.þ.b. 6-8 árum. Disknum lýkur svo með vel fyndinni og niðurtónaðri útgáfu af hinu rosalega lagi Botnleðju, "Heima er best. Geðklofaeinkenni þessarar fyrstu plötusmíðar Mullet eru henni síst fjötur um fót. "You're a Star" er t.d. tærasta popplag sem ég hef heyrt í ár, þrátt fyrir að vera eðli sínu samkvæmt "gamaldags". Mullet hefðu fengið gullið ef þeir hefðu haldið sig við þennan "ljúfsára söknuð eftir liðnum tímum" sem einkennir fyrstu fimm lögin og ég er ákveðinn í að láta þau rúlla í næsta "eighties" partíi enda fullviss um að enginn muni taka eftir því að þetta sé íslensk plata frá 1999. En því miður renna gullverðlaunin úr greipum Mulletliða vegna þess að síðari hluti plötunnar er heldur gloppóttur á stundum. Það má því með sanni segja að platan sé "hálfgert" meistaraverk.
Arnar Eggert Thoroddsen
Athugasemdir
hálfgert" meistaraverk.
Ómar Ingi, 1.2.2009 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.